LIMSFÉLAGIÐ

Félagsskapur skemmtilegra hestamanna

Vísnabanki


Ort um kosti folalds

,,Litli Rauður Sokkason
svelli þér lífsins straumur.
Þú ert ennþá aðeins von
ofurlítill draumur."

(Jón Þorsteinsson á Arnarvatni)Lýsing á víðsýni á Sjávarborg í Skagafirði

,,Suður til heiða frá sæbotni skáhöllum
sólheimar ljómandi varðaður bláfjöllum."

(Stephan G.)

Ort um Fossahlíð

Ár og síð og alla tíð
aldrei skrýðist fönnum.
Fjandinn ríði í Fossahlíð,
ég fyrirbýð það mönnum.

(Sr.Arnór í Vatnsfirði)


Hestavísur

,,Þó ég dáinn drottini hjá
dvölina fái besta
mun ég þrá að mega sjá
mína gráu hesta."
 
(Kristinn á Finnsstöðum í Kinn)Flekkótt greinist sjón og sál.
Setti að skeinum hikið
þessi beina-bölvuð-nál,
banvænt meinaprikið.

(Eyjólfur í Sólheimum)Fálki hefur hug minn glatt
hamingjan mér gaf'ann
Það veit Guð ég segi satt
svona vil ég haf'ann

(Páll Pétursson Höllustöðum)

Óheppni:
Slysum afstýrt enginn fær,
eldast menn og fúna.
Hann sem reið með reisn í gær,
er rúmliggjandi núna.

(Sigfús Jónsson í Skrúð)

Gráni:

Ég á mér gæðing einn gráan að lit
og garp engan meiri ég þekki
og víst er,á hestunum hefi ég vit
þó hinum þeim finnist það ekki.

Það er ekki farandi í fjárleitir með
fáka sem eru mjög linir
og það eru glópar sem geta ekki séð
að Gráni er betri en hinir.

Þó Gráni sé kominn í kofann sinn einn
er 'ann kannske ekkert sérlega spakur
en sálin er göfug og svipurinn hreinn
og svo er hann fljúgandi vakur.

Og þó eru sumir með þvaður og bull
en það er nú hátturinn bjána
og kjaftforir andskotar kalla það lull
er kostina ríf ég úr Grána.

Mér neitaði Gráni er um brokkið ég bað
en  bráðlega verður það fundið
og mér finnst nú tæplega talandi um það
að töltið er örlítið bundið.

Ég tel ekki Grána með truntunum hér 
því tvímælalaust er hann bestur
en fáir sjá hvað þessi öðlingur er
afburða fallegur hestur.

Ég hlýt því að undrst hve hlutdrægt er dæmt
og hlusta á öfundarstaglið
mér virðist í rauninni varla svo slæmt
þó vanti á hann faxið og taglið.

Og Gráni ber höfuðið helst til of lágt
en heldur er ég því nú feginn
því ef að svírinn er settur mjög hátt
þá sér maður illa á veginn.

Þá fylltist ég reiði því fram af mér gekk
sú fólska er viðhafa gumar
svo grátlega útreið hann Gráni minn fékk
í gæðingakeppnninni í sumar.

(Sigfús Jónsson í Skrúð)